Lyfjamál

Hér er að finna upplýsingar um lyfjagreiðslukerfi, þjónustu lyfjaverslana og annað sem tengist lyfjum.

Lyfjastofnun

Á heimasíðu Lyfjastofnunar kemur fram að hún er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir Velferðarráðuneytið. Helsta hlutverk hennar er að skrá lyf í samvinnu við lyfjayfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), hafa eftirlit með lyfjaiðnaðinum á Íslandi og tryggja faglega og hlutlausa upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og neytenda.

Lyfjaskírteini/endurgreiðsla

Árið 2015 var greiðsluþátttökukerfi lyfjakaupa breytt og er markmið þess að auka jafnræði milli einstaklinga óháð sjúkdómum. Lyfjagreiðslu einstaklings er skipt niður á 12 mánuði í senn - og fer kerfið eftir því hvenær einstaklingur kaupir fyrstu lyfin. Dæmi, ef einstaklingur kaupir lyf 10. maí 2019 þá er tímabil hans til 9. maí 2020. Sjá greiðsluþáttökukerfið á vefsíðu SÍ

Þau lyf sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) taka þátt í að greiða eru sett inn í þrep og þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðnu hámarki, innan 12 mánaða tímabilsins, getur læknir sótt um að SÍ greiði lyfin að fullu það sem eftir er af tímabilinu.

Aldraðir 67 ára og eldri, örorkulífeyrisþegar og börn og ungmenni yngri en 22 ára greiða lægri upphæðir en aðrir. Öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu greiða sem eitt.

Á fyrsta þrepi greiðir einstaklingurinn lyfin að fullu, á öðru þrepi greiðir einstaklingurinn 15% af heildarkostnaði lyfjanna en SÍ 85% og á þriðja þrepi greiðir einstaklingur 7,5% af heildarkostnaði lyfjanna en SÍ greiða 92,5%. Það kemur til fjórða þrepsins ef heildarkostnaður lyfja fer yfir ákveðna upphæð (hjá öryrkjum, öldruðum og börnum og ungmennum yngri en 22 ára er það ef heildarkostnaður er kominn yfir 325.333 kr).  Nánari upplýsingar um greiðsluþref lyfjakaupa á vef SÍ.

Lyfjaskírteini

Ef einstaklingur notar að staðaldri lyf sem er ekki á skrá Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) ætti sá hinn sami að láta lækni sækja um lyfjaskírteini til SÍ. Sé einstaklingur að nota sérlyf, sem hentar honum betur en lyf sem SÍ er með á skrá, ætti hann einnig að óska eftir lyfjaskírteini.

Upplýsingar um lyf hjá Sjúkratryggingum Íslands

Þeir sem vilja kynna sér betur lyfjagreiðslukerfið er bent á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á lyfjadeild(hjá)sjukra.is.

Lyfjaverð

Lyfjagreiðslunefnd ákveður hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og hvort sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu lyfja.  Lyfjagreiðslunefnd gefur út lyfjaverðskrá mánaðarlega, sjá nánar hér á  vefsíðu SÍ.

Þjónusta lyfjaverslana

Lyfjaverslanir landsins veita margvíslega þjónustu og upplýsingar um lyf og notkun þeirra. Margar lyfjaverslanir veita afslátt af vörum sínum og því er vert að spyrja um það í hvert sinn sem verslað er.

Flestar lyfjaverslanir bjóða lyfjaskömmtun og heimsendingu á lyfjum. Athugið að mun fleiri lyfjaverslanir en þær sem hafa vefsíðu bjóða þessa þjónustu og því er sjálfsagt að spyrjast fyrir í lyfjaversluninni. heimsending Reykjavíkurapóteks

Lyfjataka

Ýmis hjálpartæki eru til fyrir lyfjatöku og ættu að fást í flestum lyfjaverslunum, dæmi:

  • Lyfjabox með þremur aðskildum hólfum fyrir hvern dag vikunnar svo hægt er að skammta lyf fyrir inntöku þrisvar á dag
  • Lyfjadeilari sem skiptir töflum í tvennt, þrennt eða fernt
  • Mortel til að brytja töflur niður fyrir þá sem eiga erfitt með að kyngja töflum

Eitrunarmiðstöð

Á Landspítalanum er eitrunarmiðstöð sem gefur upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða. Símanúmer eitrunarmiðstöðvarinnar er 543 2222 (eða 112 í gegnum neyðarlínuna) og er svarað í síma allan sólarhringinn. Þegar hringt er í eitrunarmiðstöðina er gott að hafa upplýsingar um:

  • Heiti efnisins eða lyfsins, best er að hafa umbúðirnar við höndina
  • Hvenær eitrunin átti sér stað
  • Aldur, þyngd sjúklings

Á vef Landspítalans er að finna ýmsar upplýsingar um hvernig hægt er að koma í veg fyrir eitranir og upplýsingar um þjónustu eitrunarmiðstöðvarinnar.

Upplýsingar um lyf

Í gengum vefsíðu Lyfjastofnunar  er hægt að fá upplýsingar um lyf og sérlyfjaskrá.

Lyfjabókin inniheldur upplýsingar um öll skráð lyf á Íslandi sem eru seld í apótekum. Hægt er að leita eftir lyfjaheiti, útliti eða innihaldsefni.

Heilbrigðisvísindabókasafn LSH er fagbókasafn á heilbrigðissviði. Safnið er öllum opið en hefur það hlutverk að þjóna fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólki innan Landspítala, kennurum og stúdentum í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands og öðrum sem gert hafa þjónustusamning við safnið.
Á vefsíðu Heilbrigðisvísindabókasafnsins má finna tengla inn á vefsíður þar sem hægt er að finna ýmsar upplýsingar um lyf.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja